┌r ljˇ­inu BarmahlÝ­ eftir Jˇn Thoroddsen
Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
og blágresið blíða
og berjalautu væna,
á þér ástaraugu
ungur réð ég festa,
blómmóðir bezta!
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Go­ablˇm (Adonis)

Ættkvíslin er nefnd eftir Adonis ungum elskhuga Afrodite sem var gyðja ásta í grísku goðafræðinni. Í sumum sögnum segir að hún hafi breytt elskhuga sínum í þetta blóm sem við nefnum goðablóm. Aðrar sagnir herma að honum hafi verið banað af villisvíni og af blóði hans hafi sprottið upp áðurnefnd goðablóm. Hvað sem því líður þá voru þau skötuhjúin bæði þekkt fyrir fegurð sína og sama má segja um goðablómin. Þrátt fyrir þá staðreynd má segja að þau séu ekki mjög útbreidd hérlendis. Skýringin er ef til vill sú að þau eru ekki allt of auðveld í fjölgun en hitt er víst að þau eru allt of lítið notuð og því er vert að kynna fjölærar tegundir innan ættkvíslarinnar nánar.

Ættkvíslin er af sóleyjarætt og inniheldur fremur fáar tegundir eða um 20 talsins. Þær eru allar einstaklega lauffallegar og langflestar með stórum gullgulum blómum. Hérlendis er reynsla af ræktun að minnsta kosti tveggja fjölærra tegunda og hafa þær reynst afbragðs vel. Þær blómgast snemma vors gylltum blómum og bara sú staðreynd ætti að stuðla að frekari útbreiðslu þeirra þar sem fjöldi snemmblómstrandi tegunda er fremur takmarkaður hérlendis.

Vaxtarskilyrði.

Goðablóm vaxa vel í venjulegri en þó nokkuð kalkríkri garðmold. Skilyrði er að framræsla sé í góðu lagi en ekki má gleyma því að plönturnar þarfnast nokkurs vatns um vaxtartímann. Best er að koma þeim fyrir í fullri sól á góðum stað í steinhæðinni eða framarlega í fjölæringabeði. Einnig kemur til greina að planta þeim á bjarta skýlda staði inn á milli trjáa í sumarbústaðalandinu.

Fjölgun.

Öllum tegundum ættkvíslarinnar má fjölga með sáningu. Fjölærum tegundum er sáð í sendinn jarðveg að hausti og komið fyrir í sólreit og hafðar þar yfir veturinn en pottarnir síðan teknir inn vorið eftir. Fræin þurfa eitt eða fleiri kuldatímabil til að spíra. Spíri þær ekki fljótlega sumarið eftir eru pottarnir settir aftur út í sólreit og hafðir þar annan vetur til. Skipting kemur einnig til greina og best er að skipta þeim rétt eftir blómgun að vori. Þetta er einnig gert vegna þess að erfitt getur verið að finna þær síðar þar sem þær hverfa oft alveg um og eftir mitt sumar. Ungplöntur eru fremur lengi að ná fullri stærð og best er að ala þær upp í sólreit í 2 ár áður en þeim er plantað út í garðinn. Síðan er best að láta þær sem mest í friði eftir að þær hafa komið sér fyrir á endanlegum vaxtarstað. Að öðru leyti má segja að goðablóm séu auðveld í ræktun og ekki mjög kröfuhörð.

Fjölærar tegundir. Gullgoði (Adonis chrysocyatus)

Gullgoði (Adonis chrysocyathus) er lágvaxin tegund oftast um 30cm að hæð. Blöðin eru margfjaðurskipt á löngum stilkum og blómin gullgul með 16-24 krónublöðum. Blómgast um miðjan maí og er komin nokkur reynsla á ræktun hans bæði norðan- og sunnanlands. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru Himalajafjöll.

Vorgoði (Adonis vernalis) er aðeins lægri með

tví- eða þrífjaðurskiptum blöðum sem slær á blágrænum blæ. Blómin eru stór, dökk gullgul eða sítrónugul með 12-20 krónublöðum. Hann Vorgoði (Adonis vernalis) blómgast yfirleitt mjög snemma eða í byrjun maí en það getur auðvitað verið nokkuð háð veðurfari hversu snemma hann sýnir sig. Náttúruleg heimkynni hans eru í Evrópu og sem land liggur allt austur til Síberíu.

Aðrar tegundir en minna reyndar eru til dæmis:

Kínagoði (Adonis amurenis) 15 sm, gul blóm 3-4 sm í þvermál, stundum fyllt. Oft kallaður vetrargoði þar sem hann blómstrar mjög snemma og af honum eru fjölmörg yrki í ræktun.

Fjallagoði (Adonis pyrenaica) 40 sm, gul blóm 6 sm í þvermál.

Síberíugoði (Adonis apennina) (Synonym: Adonis sibirica og Adonis vernalis v. sibirica) líkur vorgoða, ber gul blóm sem eiga að vera jafnvel enn stærri en blóm vorgoðans.

Allt eru þetta tegundir sem ættu að vera nægilega harðgerar til að þola íslenska veðráttu.

Vorgoði og gullgoði eru sannast sagna gullmolar sem ættu að vera til í hverjum garði. Þeir lífga upp á lífið og tilveruna þegar þeir blómgast og þá getur maður verið nokkuð viss um að vorið sé komið og grundirnar farnar að gróa.

4. apríl 1999 - Björgvin St.Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is