Jˇn Helgason - ˙r ljˇ­inu ┴ Rau­sgili
Hugrökk teygist á háum legg
hvönnin fram yfir gljúfravegg,
dumbrauðu höfði um dægrin ljós
drúpir hin vota engjarós.


Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1975 - Starfsemi Lystigar­sins og hlutverk

Sögulegt ágrip.

Lystigarðurinn var stofnaður árið 1912. Hann var rekinn sem skrúðgarður eingöngu fyrstu áratugina, en síðan 1957, eftir að bærinn hafði keypt plöntusafn Fífilgerðisbræðra, þeirra Jóns og Kristjáns Rögnvaldssonar, hefur starfsemi hans sem grasgarður aukist smám saman. Auk erlendra skrautplantna var komið upp safni allra íslenskra jurta og nokkru hefur verið safnað af plöntum frá öðrum norðlægum löndum, einkum Grænlandi. Hvergi er jafn stórt safn íslenskra plantna saman komið á einum stað eins og í Lystigarðinum.

Starfsemi og hlutverk.

1. Allt frá upphafi hefur Lystigarðurinn fyrst og fremst gegnt hlutverki sem skrúðgarður fyrir bæjarbúa og gesti þeirra, og hefur rækt það hlutverk með sóma.

2. Lystigarðurinn hefur einnig verið opinber móttökustaður fyrir ýmsa tignari gesti bæjarins.

3. Íslenska plöntusafnið gefur áhugasömum Íslendingum kost á að sjá og læra að þekkja bæði algengar og sjaldséðar íslenskar plöntur.

4. Garðurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við erlenda ferðamenn, enda dregur hann að sér fleiri ferðamenn á sumrin en nokkur annar staður í bænum. Í augum margra erlendra ferðamanna er íslenska plöntusafnið eitt það markverðasta í Lystigarðinum. Þeir sjá í sínum heimalöndum fegri skrúðgarða, og fegurð Lystigarðsins verður því í þeirra augum fyrst og fremst, sýnishorn af því, hvað hægt ,sé að gera við erfiðar aðstæður á svona norðlægri breiddargráðu. Safn merktra, hánorrænna jurta er þeim hins vegar nýnæmi. Margir fá þar kærkomið tækifæri til að átta sig á íslenskum jurtum, sem hafa vakið athygli þeirra á ferðum um landið, enda er oftast tilgangslaust fyrir þá að spyrja íslenska leiðsögumenn þeirra um plöntur.

5. Safn grænlenskra plantna í garðinum er athyglisverð nýbreytni, og það væri eftirsóknarvert markmið, að koma upp í garðinum fullkomnu safni norðurheimskautsplantna. Það er engan veginn fjarlægt markmið, því að tegundafjöldi þessara plantna er ekki hár. Með þessu mætti auðveldlega gera garðinn þekktan langt út fyrir landsteinana, og þar með laða fleiri ferðamenn til Akureyrar.

6. Tilraunir hafa verið gerðar i garðinum með ræktun fjölmargra erlendra, suðlægari plantna, einkum skrautjurta. Hefur þannig talsverð reynsla fengist um mismunandi þol þeirra við íslenska veðráttu, og mætti gera meira af því að miðla af þeirri reynslu til almennings.

7. Lystigarðurinn hefur um langt árabil safnað og haft á boðstólum fræ ýmissa plantna, einkum íslenskra, sem ræktaðar eru i garðinum. Tilgangurinn er tvíþættur - fræskipti við erlenda grasgarða, og þjónusta við vísindastofnanir, sem vinna að rannsóknum í grasafræði. Í sambandi við ýmsar rannsóknir er mikilvægt að geta ræktað sýnishorn einstakra tegunda frá sem flestum heimshornum. Hafa margar slíkar fræpantanir verið afgreiddar á undanförnum árum frá um 50-60 stofnunum og einstaklingum víðsvegar um heim. Til þessa hefur Lystigarður Akureyrar verið eina stofnunin á Íslandi, sem gegnt hefur þessu hlutverki. En okkur er að sjálfsögðu hagur að því, að íslenskar plöntur séu teknar með inn í slíkar rannsóknir erlendis svo að við getum betur notfært okkur niðurstöðurnar. Þessi starfsemi hefur líka mikið orðið til að kynna garðinn út ávið, og hefur hann fengið margar heimsóknir vísindamanna frá þeim stofnunum, sem hafa haft samskipti við hann.

8. Tilvera grasasafnsins í Lystigarðinum skapar líka aðstöðu til ýmissa sjálfstæðra rannsókna í grasafræði hér heima, einkum á sviði erfða og takmörkun tegunda. Þessir möguleikar hafa lítið verið nýttir hingað til.

9. Í Lystigarðinum eru ræktaðar ýmsar sjaldgæfar, friðaðar íslenskar plöntur, og er mikil áhersla lögð á viðhald þessara stofna með fjölgun einstaklinganna. Með því að hafa þessar plöntur eða fræ þeirra á boðstólum fyrir áhugamenn i ræktun íslenskra plantna, stuðlar garðurinn að því að vernda þessar plöntur í náttúrunni. Skeggburkninn sem er sjaldgæfasta planta í flóruríki Íslands, gæti orðið útdauða á eina íslenska vaxtarstaðnum i Höfðahverfi hvenær sem er, en hefur nú verið ræktaður upp í Lystigarðinum, svo að þar er nú miklu meira magn af þessari plöntu, en nokkurn tíma var á vaxtarstaðnum síðan hann fannst. Þótt íslenski stofninn kynni að verða útdauða þar ætti að mega viðhalda honum i Lystigarðinum.

Hörður Kristinsson, grasafræðingur - um 1975

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is