Mßlshßttur
Lengi býr að fyrstu gerð.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Vinna vi­ frŠs÷fnun, frŠlista og frŠafgrei­slu

Mikil vinna er við það að hausti og síðan að vetri að sinna fræskiptum garðsins en garðurinn er í fræskiptum við rúmlega 300 grasagarða, stofnanir og einstaklinga bæði hérlendis en þó mest erlendis.

Fræsöfnun.

Að haustinu er reynt að safna fræjum af öllum þeim plöntum sem þroska fræ í garðinum, bæði innlendum og erlendum tegundum. Líka er safnað heilmiklu fræi sem er alveg á mörkum þess að geta talist þroskað. Safnað er í flestum tilfellum fleiri en einum poka sömu tegundar til að vera viss um að ná þroskuðu fræi. Samtals eru þetta vel yfir 2000 1 líters pokar. Hvern poka þarf að merkja vandlega með latnesku heiti tegundar, staðsetningu tegundar og frænúmeri og sé um villtar tegundir að ræða þá er einnig skráð hvar fræið var tínt og á hvaða degi. Síðar er bætt inn ætt viðkomandi plöntu. Safnað er fræi af villtum íslenskum plöntum t.d. í Hlíðarfjalli, í Ólafsfjarðarmúla, í Kjarna og/eða inn á Glerárdal svo dæmi séu tekin. Í lélegri fræárum er fræ tínt alveg fram í nóvemberlok og jafnvel fram í desember ef tíðin leyfir. Oft er því uppskeran í engu samræmi við tímann sem eytt er í tínsluna. Á þetta einnig við um byrjun tímabilsins þegar mjög fáar tegundir hafa náð að þroska fræ. Á þeim tíma þarf að fara víða til að ná tiltölulega fáum tegundum.

Fræhreinsun.

Í framhaldi af frætínslunni fer fræhreinsunin fram. Byrjað er á því að raða pokunum upp eftir kerfi grasafræðinnar. Fyrst koma byrkningar og ættir þeirra, síðan einkímblöðungar og að lokum ættir tvíkímblöðunga. Hverri ætt er síðan raðað eftir stafrófsröð ættkvísla. Því er eins gott að hafa skrifað greinilega á pokana í upphafi.

Hver og einn poki er síðan tekinn og leitað er að þroskuðum fræjum í honum. Fræin eru flest hver lítil og lokuð inn í fræhulstrum mismunandi að gerð. Vinnan felst þá í því að opna þessi fræhulstur og kanna síðan hvort um þroskuð fræ sé að ræða. Fræin eru sigtuð í gegn um mismunandi gróf sigti (fer eftir stærð fræjanna) og ekki látið staðar numið fyrr en allt rusl hefur verið hreinsað frá fræjunum. Leiki einhver vafi á fræþroskun sem oft er þarf að bregða hugsanlegum fræjum undir víðsjá og skoða þau betur. Í 20 til 40 sinnum stækkun er auðvelt að greina í flestum tilfellum hvort um þroskuð fræ sé að ræða. Leiki enn vafi á þessu er fræið skorið í sundur og fræhvítan skoðuð. Sé hún léleg eða ekki fyrir hendi er ekki um þroskuð fræ að ræða. Auðvitað tekur þetta mikinn tíma og fer álíka mikill eða lengri tími í þessa vinnu og fræsöfnunina sjálfa.

Frælisti.

Þegar fræin hafa verið hreinsuð þarf að gerafrælistann. Skrifaður er upp listi samkvæmt sömu röð og eftir pokunum. Frumdrættir eru slegnir inn í tölvu og uppkast prentað út sem síðan þarf að bera saman við það sem til er af þroskuðu fræi. Listinn er vandað plagg og sífellt hafa aukist upplýsingar um einstakar tegundir sem hægt er að bjóða væntanlegum viðskiptavinum. Þessar upplýsingar fylgja hverri tegund. Þar má eðlilega nefna ætt, ættkvísl, tegundaheiti, undirtegund eða afbrigði ef um slíkt er að ræða og einnig þess eða þeirra höfunda sem nefndu viðkomandi tegund upphaflega (þá miðar kerfi grasafræðinnar við þann höfund sem fyrstur er talinn hafa lýst viðkomandi tegund). Í frælistann er einnig skráð hvaðan Lystigarðurinn fékk viðkomandi plöntu eða fræ og upplýsingar um náttúrulegan uppruna sé hann fyrir hendi. Í kaflanum villtar íslenskar er ávallt getið um stað, lengdar og breiddargráðu, gróðurlendi og hæð yfir sjávarmáli. Það eru þær lágmarksupplýsingar sem krafist er um uppruna villtra plantna. Auk þessa er yfirlit yfir veðurfar ársins (upplýsingar frá veðurstofu), kafli um garðinn, listi yfir helstu heimildir sem notaðar hafa verið til verksins og fleiri smávægilegar upplýsingar sem eru breytilegar frá ári til árs. Í lista undanfarinna ára hefur verið boðið upp á 900 - 1000 tegundir (meira þó síðustu 2 árin) sem er mjög gott miðað við stærð garðsins að ekki sé talað um mannafla (flestir erlendir og hinn innlendi grasagarðurinn hafa mun fleira faglært starfsfólk). Töluverð vinna fer í þessu sambandi í að leitast við að uppræta vafaatriði með því að fletta upp höfundanöfnum í flórum og upprunaupplýsingum í eldri frælistum og yfirfara samheiti, því ávallt er leitast við að hafa nafngiftir sem réttastar. Að þessu loknu er handriti komið í hendur prentara og frælistinn prentaður í 350 eintökum. Síðasti listi var tveggja dálka prentaður í 6-7 punkta letri og 32-36 blaðsíður. Leitast hefur verið við að hafa listann sem minnstan um sig til að spara póstburðargjöld. Listinn kemur yfirleitt úr prentun í janúar og er þá frímerktur og sendur um leið til 330 viðskiptavina garðsins um víða veröld. Þeim er gefinn kostur á því að panta tuttugu og fimm tegundir úr listanum en margir panta mun meira. Þessi fjöldi ásamt því að pantanir verða að berast fyrir maíbyrjun eru varúðarráðstafanir sem settar eru inn vegna þess að mannafli er ekki fyrir hendi til að afgreiða fleiri fræpantanir.

Fræpantanir.

Tilgangurinn með því að gefa út vandaðan frælista er að vera gjaldgengur og vel það í fræskiptum við erlenda sem innlenda aðila. Mun kostnaðarminna er fyrir samfélagið að vinna á þennan hátt fremur en að senda út dýra söfnunarleiðangra í allar áttir. Með þetta öflugum tengslum við erlenda grasagarða, einstaklinga og fyrirtæki er hægt að afla fræja á mjög ódýran hátt. Eina gjaldið sem greiða þarf fyrir fræin er póstsendingarkostnaður þeirra fræja sem við sendum frá okkur til sömu aðila og við fáum síðan fræ frá. Að baki þeirra frælistum liggur einnig mikil vinna. Fólk í grasgörðum víða um heim hefur safnað villtu fræi í sínu heimalandi, bæði á láglendi og til fjalla og bjóða síðan upp á það í frælista sínum. Sumir fjárhagslega vel stæðir garðar geraút leiðangra á slóðir sem lítt hafa verið kannaðar s.s. til háfjalla í Kína svo dæmi sé tekið. Þessir garðar bjóða síðan upp á fræ (stundum græðlinga eða plöntur) af sjaldséðum tegundum sem vert væri að reyna hérlendis.

Mikil vinna fer í það á tímabilinu janúar - mars að fletta í þeim rúmlega 300 listum sem við fáum í hendurnar á hverjum vetri. Listar sem m.a. eru frá Ástralíu, Kína, Japan, Nýja-Sjálandi, ýmsum löndum fyrrverandi Sovétríkja, Kanada, öllum löndum Evrópu og svo mætti lengi telja. Listum er flett og úr þeim eru valdar þær tegundir sem líklega standast rysjótta veðráttu hérlendis. Pantað er úr 40-60 listum árlega (aldrei úr öllum). Iðulega eru pantaðar 20-30 tegundir eða tegundaafbrigði úr hverjum lista sem hefur harðgerar plöntur í boði. Pöntun er póstlögð og innan skamms (oftast innan mánaðar) koma fræin í pósthólfið okkar. Þetta þýðir það að pantaðar eru 1000-1500 tegundir árlega. Jafnóðum og pantanir skila sér er grunnupplýsingum um hverja tegund slegið inn í tölvu í skrá sem við köllum pantanaskrá. Mismunandi miklar upplýsingar eru á fræpokunum og þarf oft að bæta úr þeim. Sumir skrifa aðeins númer á pokana og þarf þá að bæta við ættkvísl og nafni og hvaðan fræið kom til að ruglingur eigi sér ekki stað við sáningu. Taka þarf þá fram viðkomandi frælista úr bunkanum og fletta upp í honum þeim upplýsingum sem gefnar eru. Það eru upplýsingar s.s. heiti tegundar, ætt, náttúrulegur uppruni, hvenær tínt og fleira í þeim dúr. Auk þess er skráð hvaðan við fengum fræið (heiti garðsins), hvenær það var pantað og hvenær pöntunin kom. Þetta eru að sjálfsögðu nokkuð mismunandi miklar upplýsingar en geta verið nokkuð langar sé um fræ af náttúrulegum uppruna að ræða. Skrifað er síðan inn í kápusíðu viðkomandi frælista hvaða tegundir skiluðu sér í pöntuninni (hægt er að nota þær upplýsingar síðar ef einhver vafi kemur upp í sambandi við skráningar).

Þess má geta sérstaklega að forsvarsmenn garðanna nota oft tækifærið og senda fyrirspurnir um eitt og annað um leið og þeir senda frá sér frælista eða fræpöntun. Þetta er hluti af starfinu og reynt er að svara öllum fyrirspurnum jafnóðum og þær berast.

Þessi vinna er drjúg og leitin að nýjum tegundum er í raun alveg óendanleg sé miðað við það að nokkur um nokkur hundruð þúsund tegundir er að ræða og sífellt koma fram ný og ný ræktunarafbrigði af þekktum tegundum (með plöntukynbótum). Tökum dæmi. Þú færð í hendurnar lista upp á 60 blaðsíður með 2400 tegundum og átt að leita að, finna og panta þær tuttugu tegundir (eða 30) sem best henta íslenskum aðstæðum og eru einnig um leið verðugir fulltrúar sem íslenskar garðplöntur í náinni framtíð. Þú þarft sem sagt að vita hvernig plantan lítur út í grófum dráttum, blómlit, hæð, hvenær hún blómgast og síðast en ekki síst hversu harðger hún er. Sem betur fer er hægt að finna þessar upplýsingar í flóru viðkomandi landa eða í umfangsmiklum garðaflórum sem gefnar hafa verið út á undanförnum árum. Til þess að finna upplýsingar um tuttugu plöntur þar því að fletta upp í nokkrum mismunandi heimildum og stundum finnast engar upplýsingar um viðkomandi tegund hvernig sem leitað er. Það er ekkert verið að ýkja í þessu sambandi, þetta er einfaldlega staðreynd.

Til þess að auðvelda þessa vinnu hefur verið farin önnur leið og ekki síður árangursrík. Útbúinn hefur verið óskalisti yfir þær tegundir sem ekki eru til í garðinum en æskilegt væri að reyna þar. Farið hefur verið í gegn um ótölulegan fjölda heimildarrita sem gefið hafa þær upplýsingar sem þörf er á. Háfjallaflórur Evrópu, Himalajaflórur og fleiri slíkar. Þar að auki hefur verið farið í gegn um fjölmargar garðaflórur sem telja þúsundir blaðsíðna en geta hörku tegunda. Út úr þessu er kominn tölvulisti (database) sem telur í dag rúmlega 17000 tegundir og tegundaafbrigði sem eftir á að reyna í grasagarðinum. Stuðst er við þennan óskalista í grófum dráttum þegar nýjar tegundir eru pantaðar. Vinnan snýst þá fremur upp í það að viðhalda þessum lista og fella út úr honum þær tegundir sem náðst hefur í og bæta í hann árlega fjöldanum öllum til viðbótar.

Fræafgreiðsla.

Fræskiptin felast ekki bara í því að fá inn fræ erlendis frá eins og raunar hefur komið fram áður. Mjög margir erlendir grasagarðar og einstaklingar nýta sér það sem boðið er upp á í okkar lista. Pantanir hafa verðið um 160 árlega á hverju ári síðustu ár. Flestir panta fullan kvóta eða því sem næst, 25 tegundir og margir rúmlega það. Þetta þýðir í raun að fjöldi afgreiddra fræskammta getur farið í 2500 eða þar um bil á hverju ári og er mikil vinna að afgreiða það magn. Tökum dæmi. Garður frá USA pantar 20 tegundir frá okkur og pöntunin er skv. sérgerðu eyðublaði þar sem tiltekið er hvaða númer hann vill fá skv. frælistanum okkar. Þá er vinnan eftirfarandi. Fræpantanir (sérstök eyðublöð) eru skráðar í tölvu. Síðan eru prentaðir út límmiðar með nafni tegundar. Límmiðar eru síðan límdir á litla poka. Þá er komið að því að finna fræið og setja í hvern poka. Fræ eru flest í plastdollum í skápum og því er fyrsti fræpoki tekinn, farið í réttan skáp, fundin viðkomandi dolla, hún opnuð, náð í fræ og það sett í pokann. Þannig vinnst þetta, þar til fræ er komið í alla pokana. Þá eru þeir settar í þykkt umslag, skrifað utaná heimilisfang viðtakenda og síðan frímerkt og komið í póst. Þessi vinna er drjúg og reynt er að afgreiða fræpantanir jafnóðum og þær berast. Síðustu árin hafa verið afgreiddir um 2500 fræskammtar árlega til um 60 mismunandi aðila og ávallt er síðan afgreitt töluvert af fræi að sumri til áhugasamra íslendinga og útlendinga sem vilja reyna áhugaverðar tegundir sem þeir rekast á í garðinum.

BSt 2001

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is