Halldˇr Laxness

"Blóm eru ódauðleg... þú klippir þau í haust og þau vaxa aftur í vor, - einhversstaðar."

Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1982 - Jurtirnar koma jafnan ß ˇvart

Á rölti með Jóhanni Pálssyni forstöðumanni um Lystigarð Akureyrar

Á okkar köldu túndru elds og ísa verður Lystigarðurinn á Akureyri talinn meðal fegurstu reita er unnir hafa verið af manna höndum. Það er staðreynd sem öllum ætti að verða ljós er þeir leggja leið sína um gangvegi þessa garðs. Hann er sem perla í höfuðstað Norðurlands og punkturinn yfir i þeirrar miklu gróðursældar sem öðru fremur einkennir Akureyri.

Það var því ekki að ófyrirsynju að blaðamenn DV brugðu sér inn fyrir hlið þessa grasagarðs er þeir áttu leið um bæinn fyrir skemmstu.

Eins og venja er þegar i Eyjafjörð er komið mátti varla sjá ský á himni. Þannig skein vinaleg sólin á brúna og sæla kroppa ungfljóðanna sem störfuðu af kappi við að fegra fjölbreytileg blómabeð garðsins og ungir gumar stóðu þeim lítt að baki við að slá snyrtilega grasfletina. En sleppum allri rómantík sem þó óneitanlega kemur upp í huga manns þegar gengið er um slíka eden sem Lystigarðurinn er.

Trén á áttræðisaldrinum.

Við eitt af gróðurhúsum garðsins verður á vegi okkar forstöðumaðurinn sjálfur, Jóhann Pálsson að nafni. Hann bregst vel við er við spyrjum hann hvort hann geti ekki sagt okkur eitthvað af sögu og lífríki garðsins. Við fáum okkur sæti í forsælunni undir hárri og tignarlegri ösp og saga garðsins lætur ekki á sér standa af vörum Jóhanns:

“Það var byrjað að planta í garðinn vorið 1910 þannig að elstu trén hér eru komin nokkuð á áttræðisaldurinn. Það voru aðallega konur sem hófu þetta starf og víst hefur það verið gert af mikilli hugsjón og framtakssemi því hvort tveggja hafa það verið tímafrek hjáverk að hlúa að og hirða garðinn á fyrstu árum hans. Að öðrum ólöstuðum var það frú Margrethe Schiöth sem átti drýgstan þátt í að hlúa að garðinum þegar á fyrstu áratugum hans. Á þessum árum hvíldi mestöll vinna í garðinum á hennar herðum. Eftir að eljusemi hennar naut ekki lengur við tók Akureyrarbær að sér allan reksturinn og hefur svo verið um nokkurra áratuga skeið. Eins og stendur vinna tveir fastir starfsmenn í garðinum en auk þess fáum við til liðs við okkur nokkra vaska unglinga yfir sumartímann, sem þú raunar kemur auga á hér víðsvegar um garðinn."

Elstur grasagarða á landinu.

- Lystigarðurinn á Akureyri var til að byrja með um einn hektari en með árunum hefur garðurinn eðlilega stækkað og aukist að trjá- og plöntuvali og telst hann nú um þrír hektarar að stærð. Þess má geta að elsti hluti hans er þar, sem nú telst vera norðausturhluti garðsins.

Þessi grasagarður er því stærstur sinnar tegundar á Íslandi að flatarmáli enda er hann þeirra elstur. Það má því ætla að gífurlegt verk sé í því fólgið að halda garðinum við. Eða hvað segir Jóhann um aðhlynninguna?


Heimskautaplöntur (Flora Arctica) sjást hér í allri sinni dýrð og ef grannt er skoðað má sjá blessaðan njólann á myndinni lengst til vinstri.


"Jú, hún krefst mikillar vinnu. Það fer mikill tími í hana enda má segja að aðhlynning og önnur vinna í garðinum nálgist það að vera nostur. Svo krefst þetta vissrar nákvæmni líka:"

Öspin er einkennistré bæjarins.

-Það er ekki í mannlegu valdi að telja öll þau tré sem Lystigarðurinn geymir enda er fjöldinn kannski ekki fyrir mestu. Fegurð þeirra og umhirða vegur þyngra. Jóhann er spurður um tegundir trjánna í garðinum.

“ Það er því miður ekki nákvæmlega vitað hversu margar tegundir trjáa eru hér. Mest var sáð af birki, reynivið og lerki til að byrja með. Alaskaöspin hefur hins vegar tekið yfirhöndina núna hvað sáningu varðar. Það má enda segja að öspin sé orðin að eins konar einkennistré bæjarins, svo mikið er orðið af henni, bæði hér innan garðs og utan.

Við erum náttúrlega alltaf að leita eftir nýjum tegundum til að gróðursetja og þreifa okkur áfram hvað henti best hérna hjá okkur.

Þess má geta í þessu sambandi að á vegum Lystigarðsins, Skógræktarfélags Eyjafjarðar og garðyrkjustjóra bæjarins er í undirbúningi að stofna eins konar safn lifandi trjáa. Þetta safn kemur til með að ná allt frá brekkunni hér fyrir neðan garðinn og fram undir Kjarnaskóg. Í safninu verða mismunandi tegundir trjáa og runna sem gróðursettar verða í skipulögðum lundum og hvömmum, allt eftir því hvar hver nýtur sín best. Á þessu viðamikla og að ég held skemmtilega verki verður byrjað núna síðar í ágúst þegar aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn verður hér á Akureyri, verður settur."

Þúsundir tegunda af fjölærum blómum.

- En hverfum þá aftur inn fyrir hlið Lystigarðsins og veltum fyrir okkur fjölda og fjölbreytileik blómanna.

"Það munu vera milli tvö- og þrjú þúsund tegundir fjölærra blóma hérna hjá okkur. Það er ekki hægt að gefa upp nákvæma tölu í þessu tilliti því það deyja alltaf nokkrar tegundir á ári og nýjum er sáð. Það er síðan spurning hvort þær ná að dafna hér meðal okkar og lifa íslenska veturinn af.

Sem grasagarður stundar Lystigarðurinn fræskipti við á annað hundrað garða úti í heimi. Við sáum því upp undir þúsund nýjum tegundum á ári. Sumt lukkast og annað ekki, eins og gengur og gerist. Og alltaf eru það einhverjar jurtir sem koma manni á óvart og gera þetta starf manns þannig þess virði að fást við það.”

Hér þarf að nota aðrar jurtir en erlendis.

- Hefur Lystigarðurinn einhverja sérstöðu meðal grasagarða að þínu mati?

"Við erum alltaf að reyna að fara ótroðnar slóðir í plöntuvali. Við reynum iðulega að brydda upp á einhverju nýju og áður óþekktu með vissu millibili og það gefur garðinum náttúrlega vissa sérstöðu. En í þessu tilliti þarf alltaf að koma með nýjar og ferskar hugmyndir og talsverð áhætta þarf að fylgja þessu í þokkabót. Ansi oft getur því reynst erfitt að finna og fara inn á nýjar brautir.

En það sem gerir þennan garð frábrugðinn öðrum görðum erlendis er að hér þarf að nota aðrar jurtir en algengar eru í hlýrri löndum. Það gerir garðinn kannski dálitið sérkennilegan í augum erlendra ferðamanna sem hér eiga leið um því þótt fjölbreytnin sé mjög mikil er ekki þar með sagt að þessir ferðamenn hafi nokkurn tíma komið auga á margar þær tegundir sem hér getur að líta. Það er þá kannski nokkuð öfugsnúið að sjá á þessu landi - sem þeir hafa vafalítið talið vera heldur gróðursnautt ­margar og snotrar blómategundir sem varla eða ekki þekkjast í hlýjunni heima hjá þeim."

Af prakkarastrikum Stefánssona.

- Þegar gengið er um Lystigarðinn á Akureyri rifjast upp fyrir manni nokkur heldur spaugileg atvik sem hér hafa átt að gerast. Frægastar eru sennilega sögurnar af bræðrunum Steingrími og Örlygi Sigurðssonum sem bjuggu hér við jaðar garðsins á árum áður þegar faðir þeirra var skólameistari við Menntaskólann á Akureyri.

Örlygur var til að mynda að fremja eitt sinna prakkarastrika þegar lágmynd í minningu þeirra kvenna er fyrstar plöntuðu trjám í garðinn var afhjúpuð. Undir lágmynd þessari stendur setningin: "Konur gerðu garðinn" en áður en afhjúpunin fór fram hafði Örlygur af kerskni sinni bætt stafnum "í" milli vel valdra orða. Og það þarf náttúrlega ekki að orðlengja þetta frekar: Upplit þeirra er voru viðstaddir vígslu lágmyndarinnar þótti heldur skoplegt þegar hulunni var svipt af listaverkinu!

Sprettan aldrei meiri en það sumar.

Annað atvik varð rétt norðan við garðinn. Þar var á þessum árum allstór mykjuhaugur við fjós er þá var í notkun á menntaskólalóðinni. Áhugi Steingríms á hvers konar dínamíti og sprengjum var orðlagður um þessar mundir meðal bæjarbúa. Og sem oftar var Steingrímur við iðju sína, í þessu tilviki við nefndan mykjuhaug. Öllum að óvörum, og Steingrími stráknum vitanlega mest, virkuðu sprengjur hans þarna í fjóshaugnum. Og í hagstæðri vindáttinni dreifðist mykjan jafnt og þétt yfir meginhluta grasagarðsins rómaða. Hefur það æ síðan verið haft í flimtingum manna á meðal að sprettan í garðinum hafi sjaldan eða aldrei verið meiri en einmitt þetta sumar þegar sprengjur Steingríms virkuðu.

-En nóg umprakkarasögur af þeim bræðrum Steingrími og Örlygi. Við Jóhann röltum um stíga garðsins og njótum góða veðursins. Það er mannmargt í garðinum þennan dag og fólk almennt léttklætt og ánægt með tilveruna. Ég spyr því Jóhann hvernig aðsóknin að Lystigarðinum sé að jafnaði:

Krakkarnir og gamal­mennin tíðastir gesta.

"Hann er gífurlega mikið sóttur og virðist aðsóknin aukast jafnt og þétt ár frá ári. Það má enda ætla að langflestir ferðamenn sem á annað borð eiga leið hér um bæinn komi við hjá okkur og þeir skipta vitanlega tugþúsundum á sumri hverju. Þetta er svona nokkuð í bland erlendir og innlendir ferðamenn og aldursskiptingin er ekki greinanleg.


Það felst mikil vinna í því að hirða garðinn, sem stundum jaðrar við nostur, segir Jóhann um aðhlynningu garðsins.


Aftur á móti er hún greinanleg þegar um innanbæjarfólk er að ræða. Aðallega eru það krakkarnir annars vegar og hins vegar gamalmennin sem hingað sækja af Akureyringum."

Og það ætti vissulega enginn að verða svikinn af því að bregða sér dagstund í Lystigarðinn. Hér er alltaf nóg að skoða!

"Já, hér er alltaf nóg að sjá og kannski má segja að hér sé of mikið að sjá því þeir sem koma hingað geta yfirleitt ekki gefið sér nægan tíma til að skoða sig um. Það virðast nefnilega allir vera á hraðferð hvort heldur þeir eru í sumarfríi eða ekki.

Hver planta á sinn tíma.

Til að fá full not af því fjölskrúðuga lífríki sem garðurinn býr yfir verður fólk nefnilega helst að geta komið hingað í hverri viku. Ástæðan er sú að hver planta sem þrífst hér í garðinum á sinn ákveðna tíma yfir sumarið, ef svo má að orði komast. Það er alltaf eitthvað nýtt að rekast á í hverri viku, allt frá því fyrstu laukarnir gægjast upp á vorin þar til síðustu aldinin og laufin falla á haustin."

- Mega unnendur garðsins eiga von á því að garðurinn taki einhverjum verulegum breytingum á komandi árum?

"Garðurinn er náttúrlega sífellt að breytast að meira eða minna leyti eins og ég benti á hér á undan. En hann kemur varla til með að taka stakkaskiptum á næstu áratugum. Það má fólk vera visst um.

Hann á heldur ekki eftir að stækka meira að flatarmáli en hann hefur gert á síðustu áratugum. Sem grasagarður og útivistarsvæði þarf hann ekki meira pláss."

Þar sameinast vinna og tómstundagaman.

- Að lokum, Jóhann. Þú hefur veitt Lystigarðinum forstöðu vel á fimmta ár. Er þetta ekki gefandi starf?

‘’Jú, þetta er virkilega gefandi starf því þarna sameinast að mörgu leyti hjá manni vinna og tómstundagaman sem bæði getur haft sína kosti og galla.’’

Þar með kveðjum við þann mæta mann Jóhann Pálsson og þann fágæta og stórkostlega grasagarð er hann hefur umsjón með norður á gróðri prýddri Akureyri.

SER - DV 7. ágúst 1982.

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is