ŮurÝ­ur Gu­mundsdˇttir - RŠtur
Ég geng um skrúðgarða borgar
og blómin horfa á mig
litríkum framandi augum
og ilmur þeirra er alltaf nýr

Í fjarska situr fölblá gleymmérei
á fötum lítils barns

Því blágresi, holtasóley og steinbrjótur
voru blóm bernsku minnar

Og rætur þeirra
verða alltaf mínar

Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1984 - Perla Nor­urlands.

Í hugum flestra Íslendinga, er Akureyri sennilega gróðursælasta bæjarfélag landsins. Ástæðurnar eru margar. Veðurfar er ólíkt því sem gerist sunnan heiða og sumarhiti verður oft mikið meiri en menn eiga almennt að venjast. Há tré og mikill gróður setja svip á bæinn og síðast en ekki síst er þar að finna "perlu" Norðurlands, Lystigarðinn á Akureyri.

Nú í vor eru liðin 75 ár síðan Lystigarðurinn var opnaður almenningi. Það voru húsmæður á Akureyri undir forystu Önnu C. Schiöth, sem höfðu forgöngu um stofnun garðsins. Stofnfundur Lystigarðsfélagsins var haldinn 1. maí 1910 og fékk félagið u.þ.b. einn hektara af landi á norðanverðu Eyrarlandstúni, til ráðstöfunar. Konurnar byrjuðu á að planta birki og reynivið og var garðurinn skipulagður af frú Schiöth.

Lystigarðsfélagið sá um rekstur Lystigarðsins á Akureyri fram til ársins 1953 er það var lagt niður og Akureyrarbær tók við rekstrinum. Árið 1957 var garðurinn jafnframt gerður að grasgarði en Akureyrarbær keypti þá plöntusafn Jóns Rögnvaldssonar, garðyrkjumanns og umsjónarmanns við Lystigarðinn. Síðan þá hefur garðurinn vaxið og dafnað og er þar að finna um 2400 plöntutegundir,. sem tekist hefur að greina með vissu. Lystigarðurinn er sannkölluð perla og hann hefur átt sinn stóra þátt í að gera Akureyri að þeim ferðamannabæ, sem bærinn er í dag.

Við hjá Gróðri og görðum, tókum okkur ferð á hendur fyrir skömmu og heimsóttum Lystigarðinn á Akureyri. Reyndar var snjór yfir öllu er við heimsóttum Axel Knútsson, garðyrkjumann og Elínu Gunnlaugsdóttur, grasafræðing Lystigarðsins, en það kom ekki að sök. Tilefnið var að spjalla um garðinn og rekstur hans, en það má gjarnan koma fram að Lystigarðurinn í vetrar eða vorskrúða, getur verið heillandi sjón.

600 tegundum sáð árlega.

Að sögn þeirra Axels og Elínar er hlutverk garðsins tvíþætt. Hann er almenningsgarður en einnig grasgarður og sem slíkur tekur hann þátt í samstarfi grasgarða víðs vegar um heim. Fræskipti milli garðanna eru mikil og vaxandi og í Lystigarðinum á Akureyri er sáð um 600 tegundum árlega. Þetta eru ýmsar tegundir, yfirleitt af norðlægum uppruna sem vaxa í mikilli hæð.

- Við reynum þó að einbeita okkur að íslensku flórunni. Hún á að vera stolt garðsins og reyndar er það svo að það er íslenska flóran sem laðar flesta ferðamenn að. Þetta á ekki síst við um útlendingana, segir Axel en samkvæmt upplýsingum hans skiptir gestafjöldinn tugum þúsunda á ári hverju. Axel segir að öll þau ár sem hann hafi unnið við garðinn, hafi verið mjög góð aðsókn og hún virðist haldast í hendur við þá miklu aukningu sem orðið hefur á komum erlendra ferðamanna hingað til lands.

- En hvað með Akureyringa? Notfæra þeir sér lystisemdir Lystigarðsins?

- Bæjarbúar nota garðinn mjög mikið. Það er eftirtektarvert að elsta og yngsta kynslóðin virðast nota garðinn mest. Maður heyrir oft að fólk á besta aldri segir stundarhátt þegar það kemur; hingað hef ég ekki komið síðan ég var krakki. Þá er einnig mikið um að fólk komi hingað um leið og það fer í heimsóknir á sjúkrahúsið. Loks má nefna að Akureyringar halda margir hverjir í þann sið að koma hingað á 17. júní og þá er jafnan mikill fólksfjöldi í garðinum.

Elstu trén komin að fótum fram.

- Hvernig stendur Akureyrarbær að rekstri Lystigarðsins. Er nóg gert eða mætti eitthvað betur fara?

- Okkur sem hér vinnum, finnst alltaf að meira mætti gera. Ef hins vegar er litið til annarra staða, er ekki hægt að segja annað en að Akureyrarbær standi sig vel. Þetta er elsti grasgarður landsins og bæjaryfirvöld hafa fullan skilning á því að halda uppbyggingunni áfram, segja þau Axel og Elín en þau benda á að mörg brýn verkefni þarfnist úrlausnar sem fyrst. Vinnuaðstaða starfsfólks hefur verið ófullnægjandi en úr því er verið að bæta. Þá þarf að bæta hreinlætisaðstöðu í garðinum og gera átak í endurbyggingu gamalla mannvirkja.

- Það skiptir mestu máli að láta ekki deigan síga. Þetta eru mikil verðmæti sem okkur er treyst fyrir og við megum ekki láta þau grotna niður. Hér þarf að endurbyggja gosbrunna og gangstíga og í ræktunarmálum er brýnast að planta nýjum trjám til þess að taka við af þeim gömlu, sem mörg hver eru komin að fótum fram, segir Axel en þess má geta að mörg af fyrstu trjánum sem plantað var fyrir um þrem aldarfjórðungum, standa enn og eru því orðin háöldruð a.m.k. ef miðað er við líftíma birkis sem sjaldan verður eldra en 100 ára.

Trjáa og runnasafn í Syðri Brekkunni.

Að sögn þeirra Axels og Elínar, er umgengni um Lystigarðinn yfirleitt mjög góð en Lystigarðurinn sleppur ekki við stöku spellvirki, frekar en aðrir staðir. Hafa þessi spellvirki sem betur fer beinst að dauðum hlutum en gróðurinn hefur yfirleitt verið látinn í friði.

Er Lystigarðurinn var stofnaður, var garðurinn um einn hektari að stærð. Hann hefur síðar verið stækkaður í áföngum og er nú rúmlega þrír hektarar. En er hann nægilega stór að mati starfsmannanna?

- Það er álitamál. Lystigarðurinn er nógu stór fyrir gott safn fjölærra plantna og fyrir íslensku flóruna en það er erfitt að reyna hér ræktun runna og trjáa vegna plássleysis. Það rættist þó úr þessu með stofnun Trjáa- og runnasafns Akureyrar (arboretum) 16. júní 1983. Fyrirmyndin er erlend en hugmyndin er sú að þær tegundir sem virðast standa sig vel í uppeldi hjá okkur, verði prófaðar áfram hér í Brekkunni frá kirkjunni suður undir Kjarnaskóg. Það eru garðyrkjudeild bæjarins, Skógræktarfélag Eyfirðinga í Kjarnaskógi og Lystigarðurinn sem standa að safninu og árangur af þessari ræktun ætti að koma í Ijós eftir 10 til 15 ár og svo næstu áratugina. Ef vel tekst til ætti þetta að geta breytt svipmóti bæjarins enn til hins betra, sagði Axel Knútsson.

Þess má geta að Lystigarðurinn á Akureyri er opinn virka daga frá kl. 8 til 22 og um helgar frá 9 til 22, á tímabilinu frá 1 . júní til 30. september. Auk þess er garðurinn yfirleitt opinn bæjarbúum og öðrum á vinnutíma í maí og október og gefst fólki þá kostur á að fylgjast með árstíðabundnum breytingum á gróðrinum.

G&G 1tb 4. árg - Axel Knútsson, garðyrkjumaður Lystigarðsins.

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is