Mßlshßttur
Oft vex laukur af litlu.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1980 - 70 ßr frß stofnun Lystigar­sfÚlags Akureyrar

Akureyri, 28. apríl.

Leiðbeint um trjáklippingu 1. maí.

LYSTIGARÐSFÉLAG Akureyrar var stofnað 1. maí 1910 og verður þess minnst í Lystigarðinum kl. 10 árdegis á fimmtudaginn með því að forstöðumaður Lystigarðsins, Jóhann Pálsson, grasafræðingur, mun gangast fyrir skoðun trjáa og runna í vetrarbúningi og leiðbeina fólki um trjáklippingu. Verði veður óhagstætt, verður þessari sýnikennslu frestað til næstu helgar.


Miðhluti Lystigarðs Akureyrar um 1930.

- Eyrarlandsstofa og gamli Eyrarlandsbærinn í baksýn.

Ljósm.: Vigfús Sigurgeirsson.


Upphaf Lystigarðs Akureyrar var það, að fjórar húsfreyjur í bænum, þær Anna Stephensen, Alma Thorarensen, María Guðmundsson og Sigríður Sæmundsen sóttu til bæjarstjórnar sumarið 1909 um landspildu undir skrúðgarð handa almenningi, og var norðurhluti Eyrarlandstúns, þrjár og hálf dagslátta látin í þessu skyni. Stofnfundur Lystigarðsfélagsins var svo haldinn 1. maí 1910 og sóttu hann 20-30 manns. Stefán Stefánsson skólameistari var fundarstjóri, en fundarritari Halldóra Bjarnadóttir, skólastjóri Barnaskólans. Sigríður Sæmundssen var kosin formaður, Alma Thorarensen gjaldkeri og Anna Stephensen ritari, en í framkvæmdanefnd María Guðmundssonn og Anna Catharine Schiöth. Hin síðastnefnda gerði uppdrætti að garðinum og var lífið og sálin í framkvæmdunum fyrstu árin.

Fjár var aflað með ýmsu móti, svo sem með fjárframlögum og vinnu félagsmanna, skemmtisamkomum og hlutaveltum. Fyrsta fjárhagsáætlunin hljóðaði upp á 2500 krónur, og í sjóði voru þá 480 krónur. Árgjald var 2 kr. og ævifélagagjald 10 kr., en einnig gátu menn gerst félagar með því að leggja fram vinnu við garðinn. Þess má geta, að árið 1912 gekkst félagið fyrir stofublóma- og matjurtasýningu, og hafði Guðrún Þ. Björnsdóttir frá Veðramóti veg og vanda af henni. Mun það hafa verið fyrsta sýningin sinnar teg­undar hér á landi. Félagið naut styrks úr Ræktunarsjóði Friðriks konungs 8. nokkur ár, og bæjarstjórn hefir styrkt Lystigarðinn árlega frá 1919 og tók rekstur hans að sér að fullu 1953.

Hafist var handa um gerð garðsins sumarið 1911, og var hann opnaður almenningi árið eftir. Framan af var hann aðeins opinn á sunnudögum. Við fráfall Önnu Schiöth (1921) varð Halldóra Bjarnadóttir formaður félagsins um skeið, en við brott­flutning hennar úr bænum varð Haraldur Björnsson formaður í 2 ár eða þar til hann sigldi utan til leiklistarnáms. Þá tók við formennsku Margrethe Schiöth, tengdadóttir Önnu Schiöth, og bar hita og þunga af rekstrinum og starfseminni allt fram til ársins 1953. Á sjötugsafmæli hennar árið 1941 kaus bæjarstjórn Akureyrar hana heiðursborgara fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf hennar við Lystigarðinn.

Vilhelmína Sigurðardóttir Þór sat lengst allra í stjórn Lystigarðsfélagsins eða í 36 ár (1917-­1953), lengst af gjaldkeri. Af öðrum stjórnarmönnum má nefna Guðlaug Guðmundsson, Jakob Líndal, Odd Thorarensen og Þorkel Þorkelsson. Síðasta fundargerð félagsins er frá árinu 1933, og eftir það má segja, að félagsstarfið hvíldi eingöngu á herðum Margrethe Schiöth og Vilhelmínu Sigurðardóttur Þór, þar til félagið leystist upp og Akureyrarbær tók að sér rekstur og umhirðu Lystigarðsins 1953.

Eftir það veitti Jón Rögnvaldsson garðinum forstöðu til 1970, og á þeim árum var garðurinn stækkaður tvisvar. Árið 1957 keypti Akureyrarbær plöntusafn bræðranna Jóns og Kristjáns Rögnvaldssona og hefir síðan verið rekinn jafnframt sem grasgarður eða lifandi plöntusafn.

Sverrir Pálsson, Morgunblaðið 30. apríl, 1980.Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is