Mßlshßttur
Eigi fellur tré við hið fyrsta högg.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1974 - TÝmabŠrt a­ setja ni­ur haustlaukana.

Nú er kominn sá tími árs að búast má við næturfrostum hvenær sem er. Um síðustu helgi snjóaði mikið í fjöll og varð Vaðlaheiði ófær af þeim sökum, og jörð var hrímuð niðri í byggð fyrri hluta vikunnar.

Af þessu tilefni hafði Íslendingur samband við Hólmfríði Sigurðardóttur, garðyrkjukandidat, og fékk hjá henni nokkur góð ráð fyrir garðeigendur um, hvernig þeir geti sem best hlúð að görðum sínum fyrir haustið. Ráð hennar fylgja hér á eftir:

- Ef fólk er ekki nýbúið að slá grasið á lóðum sínum, ætti það að gera það einu sinni enn fyrir veturinn. Grasi hættir til að rotna og fá kalbletti, ef það fer of loðið undir snjó. Þar sem mikið er af trjám, verður að raka laufið burt af grasinu og er þá ágætt að setja það út í blómabeðin. Eins er gott að setja gamlan, rotinn húsdýraáburð í beðin.


Hólmfríður Sigurðardóttir er starfsmaður Lystigarðsins á Akureyri en hún er garðyrkjukandidat að mennt.


Nýr áburður er aftur á móti ekki heppilegur, þar sem hann getur sviðið gróðurinn. Öruggara er að binda ung tré, sem t.d. voru gróðursett í vor, við prik, til að þau brotni ekki undan snjóþunganum. Viðkvæmum plöntum, t.d. kynblendingsrósum, þarf að skýla sérstaklega. Gott er að hreykja mold upp að þeim í allt að 10-20 sentimetra hæð, og auk þess hvolfa yfir þær kössum eða einhverju slíku. Í nokkrum görðum á Akureyri eru sígrænir runnar og þarf að setja þykkt lag af laufi á moldina í kring um þá til að hún frjósi minna. Ekki er talið æskilegt að klippa ofan af fjölærum plöntum, heldur er best að láta þær standa óáreittar yfir veturinn.

Rótarhnýðin geymd.

Þeir sem eiga dahlíur í görðum sínum ættu að fara að taka rótarhnýðin upp og klippa af stönglunum. Látið rótarhnýðin síðan þorna í nokkra daga. Æskilegt er að hrista vel af þeim alla mold, og strá yfir þau sveppadufti, BRASSICOL, til að verja þau rotnun. Rótarhnýðin eru síðan geymd á köldum og þurrum stað í sandi eða mómold. Rótarhnýðin mega ekki frjósa í geymslu. Gladíólulauka á einnig að taka inn og geyma þá á svipaðan hátt og dalíurnar. Það sama gildir um Maríusóleyjarlauka (öðru nafni anemónur). Gott er að taka þá inn, en annars geta þeir einnig lifað í moldinni, ef þeim er skýlt vel.

Haustlaukar.

Nú er rétti tíminn til að kaupa haustlauka, t. d. túlípana og páskaliljur, og betra er að koma þeim í moldina fyrr en seinna. Þó er hægt að setja þá niður fram eftir hausti, eða svo lengi sem jörð er frostlaus. Laukarnir eru settir mismunandi djúpt í moldina. Gott er að setja minnstu laukana niður í 4-5 sm dýpt, en stærri lauka, t. d. túlípanalauka, þarf að setja allt niður á 15 sm dýpi. Þá er gott að leggja lag af mosa og laufi yfir, sérstaklega ef laukarnir eru settir niður seint að haustinu.

Að lokum sagði Hólmfríður, að hún hefði lítið gert af því að flytja runna og tré að haustlagi, og vildi því ekki gefa ráð um það efni. En fjölær blóm, sem blómstra snemma á sumrinu, er enn hægt að flytja. Þær plöntur, sem eru í fullum skrúða núna, er aftur á móti ekki hægt að flytja úr stað á þessu hausti, ef þau eiga að lifa veturinn af.

Íslendingur, 29.08 1974

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is