Ëlafur Jˇhann Sigur­sson - ┴ vordegi
Grundin eignast gullinn fífil,
geislafingur hlýir strjúka
lambakóng með lítinn hnýfil,
lambagrasið rauða og mjúka.

Vappar tjaldur, vellir spói,
verpir í broki mýrispýta.
Bráðum kveikir fenjaflói
fífublysið mjallahvíta.

Bráðum mun í morgunstillu
meðan þokan kveður dranga
ljósberi hjá lágri syllu
lyfta kolli til að anga.

Blíða daga, bjartar nætur
bugðast á með tærum hyljum
eftir laut sem litlir fætur
lásu forðum berum iljum.


Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1962 - Lystigar­urinn 50 ßra.

Á þessu ári er Lystigarður Akureyrar hálfrar aldar gamall. Stofnaður 1912 að frumkvæði danskrar konu Önnu Katharine Schiöth, og síðan stjórnað af tengdadóttur hennar, Margrethe Schiöth, um 30 ára skeið af miklum dugnaði og fórnfýsi eins og alkunnugt er. Á þessu tímabili hafa að sjálfsögðu allmargir menn og konur unnið við garðinn, um lengri eða skemmri tíma, en Þuríður Árnadóttir eða Þura í Garði eins og hún er jafnan kölluð, mun hafa starfað þar lengst. Vann hún við garðinn í mörg ár af einstakri trúmennsku og gladdi margan gest og gangandi með sínum smellnu gamanvísum. Þá ber að minnast þess, að um fjölda mörg ár var Vilhelmína Sigurðardóttir Þór, gjaldkeri garðsins, og tók aldrei eyri fyrir sína fyrirhöfn.

Lystigarður Akureyrar er annars fyrsti almennings- eða skemmtigarðurinn, sem komið er upp hér á landi, enda hafði Akureyri lengi verið í fararbroddi með ræktun og gróður. Er þar um að ræða að öðrum þræði áhrif frá áhugasömu dönsku fólki, sem hér hafði sest að og sumt ílenst í landinu, svo og hinum landskunnu áhuga- og hugsjónamönnum þeim Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra og Stefáni Stefánssyni skólameistara, en báðir þessir menn höfðu átt heima á Akureyri í nokkur ár er Lystigarðinum var komið upp, og efalaust stutt að stofnun hans.

Tvisvar sinnum síðan 1912 hefur garðurinn verið stækkaður, og er hann nú um 3 ha, en það er líka komið svo, að frekari stækkun virðist útilokuð í framtíðinni og er slíkt illa farið.

Það hafði lengi verið draumur nokkurra mætra manna, að komið yrði upp grasgarði (botaniskum garði) hér á landi. Mun dr. Helgi Jónsson grasafræðingur fyrstur manna hafa komið fram með hugmyndina á prenti í Búnaðarritinu 1906.

Stuttu síðar kemur Sigurður Sigurðsson með aðstoð Helga Jónassonar upp nokkru safni íslenskra jurta í Gróðrarstöðinni á Akureyri. Eftir að Sigurður flutti burtu frá Akureyri hnignaði þessu safni fljótt, enda aldrei mjög stórt, og eyðilagðist smám saman alveg. Þá mun Stefán skólameistari líka hafa safnað nokkrum tegundum plantna í garð skólans. Þá er vitað að þeir Einar Helgason og dr. Helgi Jónsson söfnuðu nokkru af plöntum í Gróðrarstöðinni í Reykjavík, en fljótt mun sú viðleitni hafa liðið undir lok.

Það verður þá fyrst að nokkur skriður kemst á þetta mál, er Fegrunarfélag Akureyrar undir formennsku Sigurðar L. Pálssonar, menntaskólakennara, beitir sér fyrir því að koma upp grasadeild í sambandi við Lystigarðinn og hófust þær framkvæmdir 1957 eða fyrir 5 árum. Síðan hefur Lystigarðurinn reynt að auka og efla grasasöfn garðsins og er nú svo komið að meginþorri allra íslenskra jurtategunda vex í garðinum eða 402 tegundir af rúmum 430, sem talið er að vaxi villt hér á landi. Þá eru einnig um 14 hundruð tegundir erlendra plantna ræktaðar í garðinum. Flest af þessum tegundum dafnar vel. Eru þær þó ættaðar víðs vegar að úr heiminum, eða frá Grænlandi til Suður-Ameríku og frá Kína og Tíbet ti1 Alaska. Síðastliðið sumar fékk garðurinn t. d. rúmar 20 tegundir frá Grænlandi. Er það ætlunin að auka grasasöfn garðsins eftir föngum á næstunni. Gæti garðyrkjan í landinu haft mikið gagn af því að garðyrkjustöðvarnar notfærðu sér reynslu Lystigarðsins og tækju upp ræktun úrvalstegunda skrautjurta og runna, sem reynst hafa nægilega harðgerðir fyrir íslenska staðhætti. Er mikill skortur á að fólk geti fengið skrautrunna og fjölær blóm í skrúðgarða sína. Enda er það eitt af verkefnum grasagarða erlendis að stuðla að framförum í skrúðgarðarækt almennings Hefur Lystigarður Akureyrar þegar komist í samband við nokkra grasagarða erlendis og getur fengið þaðan ókeypis fræ og ýmsar upplýsingar.

Víða erlendis starfrækir hið opinbera plöntuinnflutnings stöðvar, ýmist sem sjálfstæðar stofnanir, eða í sambandi við grasagarða og er þá bæði lögð áhersla á innflutning skrautjurta fyrir skrúðgarða og nytja plantna fyrir landbúnað, iðnað og jafnvel skógrækt. Þessu hlutverki gegnir raunar Lystigarður Akureyrar nú fyrir Ísland, enda þótt í smáum stíl sé, og vonandi geta allir Akureyringar að minnsta kosti verið sammála um, að gaman væri að Lystigarðurinn gæti haldið áfram að vera í fremstu röð íslenskra almennings- og grasagarða næsta aldarhelming eins og hann hefur óneitanlega verið til þessa.

Jón Rögnvaldsson.

Dagur 29. ágúst, 1962 (Hátíðarblað)

(100 ára afmæli bæjarins)Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is