Mßlshßttur
Lengi býr að fyrstu gerð.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1950 - Stˇrfelld stŠkkun Lystigar­sins

Úr bænum:

Stórfelld stækkun Lystigarðsins

- verkefni fyrir æskuna

Eftirtektarverð tillaga frá merkum borgara

Fyrir nokkrum mánuðum kom merkur borgari í bænum að máli við blaðið og gerði grein fyrir hugmynd sinni um stórfellda stækkun Lystigarðsins. Ég ritaði þá um málið í Fokdreifaþætti blaðsins, en svo virðist, sem til­lagan hafi ekki fengið mikinn hljómgrunn meðal bæjarmanna. A. m. k. hefur verið hljótt um hana síðan og ekkert bæjarblaðanna hefur séð ástæðu til að víkja að henni. Nú um helgina ræddi ég enn á ný við þennan ágæta borg­ara. Hann taldi síður en svo ástæðu til að leggja málið á hilluna, þótt undirtektir hafi verið daufar til þessa. Hann var sannfærðari um það nú en fyrr, að þarna væri merkilegt menningarverk að vinna í þessum bæ, og að þarna væri e. t. v. sérstakt hlutverk fyrir æskufólk bæjarins, sem vissulega skortir stór verkefni að kljást við, sér til uppbygg­ingar. Okkur kom því saman um að rifja upp hina fyrri tillögu hans nú og benda stjórnmálaflokkunum og borgurunum almennt á glæsilegt framtíðarverk­efni.

Lystigarðurinn er hin mesta bæjarprýði. Þarf ekki að lýsa því fyrir, bæjarmönnum. Oft hefur verið talað unnt að stækka hann, en lítið orðið úr framkvæmdum. Gert er ráð fyrir að stækka hann til vesturs, og er það vitaskuld gott, svo langt, sem það nær. En meira þarf til, svo að Lystigarðurinn og umhverfi hans megi verða stórum glæsilegri og stærri en hann er nú. Brekkan austan Lystigarðsins er fögur og sérkennileg. Henni má ekki gleyma, þegar talað er um stækkun Lystigarðsins. Ef dreginn er ferhyrningur frá Þórunnarstræti suður fyrir gamla spítala, þaðan niður að Hafnarstræti, norður að Sam­komuhúsi og þaðan vestur í Lystigarðshornið hjá Menntaskólanum, má sjá, að innan þessara lína eru miklir möguleikar til þess að skapa eitt stórt Lystigarðssvæði, til stórrar prýði fyrir bæinn og til gagns og gleði fyrir íbúa hans. Á þessu svæði er nýja sjúkrahúsið, og væntanlegt elliheimili. Allir munu sammála um að um­hverfi þessara stofnana þurfi að prýða með trjárækt og öðrum gróðri. Gera þær að friðsælum, fögrum stöðum, umvafið gróðri. Í slíku umhverfi líður sjúkum best, og á slíkum stöðum vill gamalt fólk gjarnan eiga sitt æfi­kvöld. Tillaga hins ágæta borgara er sú, að allt þetta svæði verði skipulagt sem eitt Lystigarðs svæði og leiðin upp brekkuna verði opnuð hjá sýslumannshúsinu. Þar verði lagður þrepstígur upp brekkuna og hún öll gerð að skipulegu lystigarðssvæði. Eins túnin sunnan við núverandi Lystigarð. Reynt verði að vekja áhuga æskumanna og æskulýðsfélaga í bænum fyrir þessu verkefni og þeim fengin forustan, með hæfilegum stuðningi frá bænum.

Þetta verk kostar fyrst og fremst starf og áhuga en ekki miklar fjárfúlgur, ef áhugi borgaranna er almennur. Og það kostar ekki nema lítið í gjaldeyri og þó þá fyrst, er að því kæmi að prýða þennan stóra garð með gosbrunn­um, líkneskjum og öðru slíku.

Hér er ekki rúm til þess að gera nákvæma grein fyrir því, hvernig þessi tillaga yrði útfærð í einstökum atriðum, en þessi ábending mun nægja til þess að vekja athygli borgaranna á aðaltriðum hennar. Þarna er glæsilegt framtíðarverk að vinna. Hér þarf pólitísk sundrung ekki að torvelda framkvæmdir. Allir bæjarmenn standa saman um að fegra bæinn og gera hann að menningarbæ. Um þetta mál ættu allir að geta staðið saman.

Dagur 21.01 1950.

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is