═ morgunsßri­ - Ragna Sigur­ardˇttir
Í morgunsárið greiðir hún sér með trékambi. Hægt með föstum
strokum. Vöxturinn er svo mikill að hana kitlar í svörðinn. Hún
strýkur hendinni yfir gróðurinn. Finnur blóm springa út undir
fingurgómunum. Sóleyjar og baldursbrár. Hún leggur kambinn frá
sér. Fer út í garðinn og krýpur. Kippir upp kartöflugrösum. Rótar og
grefur með berum höndum. Djúpt ofan í moldinni finnur hún sætar og
safaríkar appelsínur.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
2000 - Brot ˙r s÷gu Lystigar­sins.

Upphafið:

Sá félagsskapur sem unnið hefur hvað merkilegast starf á sviði ræktunarmála er Lystigarðsfélag Akureyrar. Stuðlaði það félag meðal annars að sköpun og ræktun Lystigarðsins.

Lengi hafði verið vakandi áhugi meðal nokkurra kvenna á Akureyri fyrir því að koma upp skrúðgarði til afnota fyrir almenning, helst í miðjum bænum. Garðurinn skyldi skrýddur blómum, trjám og runnum og í honum gæfist bæjarmönnum kostur á að njóta ánægju og hressingar þegar vel viðraði. Hugmyndin fékk þegar góðar undirtektir meðal bæjarbúa. Í hópi þeirra sem eindregið studdu þessa hugmynd voru Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri og Stefán Stefánsson skólameistari gagnfræðaskólans (síðar Menntaskólans). Á fundi sem jarðeignanefnd Akureyrar hélt þann 17. september 1909 var tekið fyrir erindi frá fjórum hefðarfrúm bæjarins. Það voru þær Anna Stephensen, Alma Thorarensen, María Guðmundsson og Sigríður Sæmdundsson. Í bréfi sem þær sendu nefndinni var þess farið á leit við bæjarstjórnina að hún léti af hendi landspildu sem heppileg væri til ræktunar skrúðgarðsins. Nefndin samþykkti að afhenda konunum norðurhluta Eyrarlandstúnsins svonefnda til starfans. Um stærð og afmörkun spildunnar segir í fundargerð. "Spilda frá lóð Gagnfræðaskólans og suður að línum 12 föðmum norðan við Eyrarlandsbæ, milli Eyrarlandsvegar að austan og vesturjaðars Bæjarstrætis að vestan er rúmlega hálf fjórða dagslátta, en um hana liggur nyrst hið fyrirhugaða Vesturstræti og vestast Bæjarstræti". Getið var einnig um kostnaðaráætlun fyrir uppsetningu garðsins og nam hún um 2500 kr. Nefndin setti og það skilyrði að landspildan öll skyldi falla sjálfkrafa aftur til kaupstaðarins ef hætt yrði að halda honum sem almenningsgarði. Ályktun jarðeignanefndar var síðan send bæjarstjórn þar sem hún var tekin til meðferðar 8. febrúar 1910 og samþykkt nokkru síðar. Stofnfundur félagsins var haldinn 1. maí sama ár. Þar var saman komið margt af heldra fólki bæjarins en alls telur fundarbók félagsins milli tuttugu og þrjátíu stofnendur. Í fyrstu fundargerðinni er skýrt frá því að Stefán skólameistari hafi verið fundarstjóri en fundarritari var frk. Halldóra Bjarnadóttir þáverandi forstöðukona barnaskólans. Fundarstjóri gat þess í upphafi fundar að safnað hafi verið meðal bæjarbúa krónum 480 fyrirtækinu til styrktar og sýnir það að áhugi bæjarbúa var töluverður og framkvæmdafólk stóð að undirbúningnum. Að tillögu skólameistara var ákveðið að kjósa tólf manna nefnd til þess að semja lög fyrir félagið og gera áætlun um fyrstu framkvæmdir. Annar fundur félagsins var haldinn 1. nóvember um haustið. Þá voru lesin upp drög að lögum félagsins og þau síðan samþykkt með smávægilegum breytingum. Fyrsta greinin hljóðar þannig. " Fjelagið heitir "Lystigarðsfjelag Akureyrar" ." Í annarri grein félagsins er greint frá markmiði félagsins. "Tilgangur fjelagsins er að koma upp garði í Akureyrarbæ, bænum til prýði og almenningi til skemmtunar. Garðurinn sje skreyttur trjám og blómum og leikvellir og lystihús sjeu þar almenningi til afnota svo fljótt sem því verður við komið. " Um árgjöld félagsmanna segir enn fremur. "Fjelagsmaður er hver sá er greiðir 2 kr. í fjelagssjóð árlega eða 10 kr. eitt skipti fyrir öll. Hjón sem greiða samtals 10 kr. í einu skulu og talin fjelagar, þó eigi greiði þau ártillag." Seinna breyttist þetta þannig að þeir sem lögðu til vinnu við garðinn einn dag á sumri töldust einnig félagsmenn. Í lögunum var gert ráð fyrir fimm manna stjórn er skipti sjálf með sér störfum. Stjórnin var kjörin og skipuð þessum konum. Frú Sigríður Sæmundsson formaður, frú Alma Thorarensen gjaldkeri og frú Anna Stephensen ritari. Í framkvæmdanefnd voru kosnar þær frú María Guðmundsson og frú Anna Catharine Schiöth. Fyrsta verk nýkjörinnar stjórnar var að ræða fjáröflunarleiðir fyrir félagið. Á fundi í febrúarmánuði 1911 var ákveðið að halda skemmtisamkomu og tombólu um vorið til að auka við sjóðinn. Einnig spunnust umræður um garðinn sjálfan. Kom þar að góðum notum sú reynsla og þekking sem frú Anna Schiöth hafði kynnst í heimalandi sínu. Anna var gift Hendrik Schiöth bakara og síðar bankagjaldkera. Þau voru bæði fædd og uppalin í Danmörku en fluttust til Íslands um miðja síðustu öld. Anna var mikilhæf kona og landskunn fyrir ljósmyndagerð sína sem hún stundaði í fjöldamörg ár. Þá vann frú Schiöth brautryðjandastarf á sviði leiklistar í bænum ásamt J.V. Havsteen konsúl. Garðyrkjustörfin mörkuðu þó ætíð mesta rúmið meðal hugðarefna hennar. Anna sá um teikningu Lystigarðsins og fyrirkomulag og var raunar lífið og sálin í öllum framkvæmdum innan félagsins hin fyrstu ár. Vorið 1911 var byrjað á því að girða blettinn, plægja og slétta. Síðan var hann mældur uppí beð og reiti, lagðir um hann malarvegir og komið upp verkfæraskýli. Einnig var grafinn 10 m. djúpur brunnur þannig að alltaf mætti vera tiltækt vatn. Dagana langa strituðu félagsmenn af dugnaði og fórnfýsi við að plægja, herfa, sá og vökva. Trjám og blómplöntum var plantað nærgætnum höndum í hundraða tali víðs vegar um garðinn. Aðaltrjátegundirnar voru björk og reyniviður en síðar hófust tilraunir með ræktun barrtrjáa, einkum lerki. Af blómplöntum var megináhersla lögð á alls konar skrautjurtir, íslenskar og erlendar. Langmestan hluta vinnunnnar inntu félagskonur af hendi í hjáverkum sínum, kauplaust. Þær dvöldust í garðinum heilu og hálfu dagana og varð vel úr verki, sérstaklega fyrsta sumarið því þá var áhuginn mestur. Síðan unnu þær í garðinum hvert sumar meira og minna, eftir því sem efni og ástæður leyfðu.

Í nokkur ár naut félagið styrks úr Ræktunarsjóði Friðriks konungs 8. en hann var ekki hærri en svo að félagsmenn urðu að halda skemmtanir eða aðrar samkomur við og við til að geta haldið starfinu áfram. Eftir því sem skrúðgarðurinn varð stærri og veglegri, þeim mun meiri vinnu þurfti til að viðhalda honum og sú vinna hvíldi á allof fáum herðum.

"Fundurinn skorar á konur á Akureyri að hlynna að og styrkja Lystigarðinn á Akureyri með því annaðhvort að taka reit til umhirðingar eða vinna þar dagsverk ókeypis" (Fundargerðabók Lystigarðsfél. 1914).

Tillagan fékk góðar undirtektir hjá fundarkonum gáfu sig þegar fram þrjátíu konur. Næstu árin tóku allmargir sér þessar konur til eftirbreytni þótt fjöldi þeirra væri misjafn frá ári til árs. Þá var börnum einnig gefinn kostur á því að fá reiti til ræktunar í garðinum.

Árið 1919 samþykkti stjórn bæjarins eftir beiðni félagsins, að styrkja sjóðinn með allt að 300 kr. árlegri upphæð til þess að garðurinn nyti betri umhirðingar og yrði sú bæjarprýði sem til væri ætlast. Í þessu skyni var ákveðið að verja krónum 400 hvert ár til að ráða fastan starfsmann er skyldi hafa umsjón með garðinum yfir sumarmánuðina. Starf umsjónarmanns var m.a. fólgið í því að gróðursetja plöntur, vökva og hirða um garðinn, sjá um heyskap og fleira. Stundum náðust allt upp í fjörtíu hestar af heyi úr garðinum á sumri. Það var síðan selt og var andvirði þess ein af mestu tekjulindum sjóðsins.

Allt frá 1912 var Lystigarðurinn aðeins opinn almenningi á sunnudögum eftir hádegi. Var hann oftast vel sóttur af ungum sem öldnum þegar vel viðraði. Einn slíkur dagur seint í ágúst verður mönnum þó sérstaklega minnistæður. Þá var haldin skemmtisamkoma fyrir bæjarbúa. Þar var margt til skemmtunar og félagskonur gengust fyrir kaffisölu handa gestunum sem komu víðs vegar að. Hitt er þó merkilegra að fram fór blóma og matjurtasýning í húsi gagnfræðaskólans. Þetta er fyrsta sýning sinnar tegundar sem sögur fara af hér á landi og bar Guðrún Þ. Björnsdóttir garðyrkjukona veg og vanda af henni. Sýningin vakti mikla athygli kaupstaðarbúa sem og aðkomumanna enda hefur skrautblómarækt trúlega verið mörgum íslendingum nýnæmi á þessum tíma. Að henni lokinni var haldið uppboð á sýningargripunum og seldust þeir dýru verði. Til gamans má geta að einn líter af jarðarberjum var seldur á 25 kr. en þá voru daglaun verkamanns um tvær kr. og fimmtíu aurar.

Frú Anna Catharine Schiöth lést þann 27. apríl 1921, 75 ára að aldri. Þá var frk. Halldóra Bjarnadóttir formaður Lystigarðsfélagsins en frú Elise Margrethe Schiöth tengdadóttir Önnu og samstarfskona vann dyggilega við hlið hennar í garðinum.

Litlu síðar fluttist frk. Halldóra úr bænum og var félaginu mikill missir af henni.

Eftir brotför Halldóru tók frú Margrethe við formennskunni. Félagið var við það að lognast út af og voru þær Margrethe og Vilhelmína Sigurðardóttir Þór tvær eftir sem sjálfkjörin stjórn.

Tímabil frú Margrethe Schöth.

Frú Margrethe var dönsk að uppruna eins og tengdafólk hennar en fluttist hingað til lands haustið 1899 og gerðist íslenskur þegn. Maður hennar var Axel Schiöth, sonur hjónanna Önnu og Hendriks Schiöth. Áhugi Margrethe á blómum og garðrækt vaknaði þegar í bernsku í skjóli hinnar mildu dönsku veðráttu. Það voru því vafalaust mikil viðbrigði fyrir hina ungu konu að setjast hér að, langt norður við ysta haf. Henni tókst fljótt að aðlaga sig að breyttu umhverfi og brátt óx upp við hús þeirra hjóna hinn fegursti skrúðgarður sem vakti mikla aðdáun fyrir fjölbreytni og prýði. Segja má að frú Schiöth hafi sameinað hið besta úr íslenskri og danskri menningu í fari sínu. Jafnframt því sem hún sinnti húsmóðurstarfinu og barnauppeldi leið varla sá dagur að hún kæmi ekki upp í Lystigarð til að huga að fósturbörnum sínum. Þau voru hugsjón hennar og yndi. Hún vann þar tímunum saman af bjartsýni og fórnfýsi við að skipuleggja, gróðursetja og hlúa að hinum viðkvæma gróðri. Sífellt jókst þekking hennar er hún þreifaði sig áfram, ár frá ári um hvaða plöntur myndu dafna best.

"Þessi garður er listaverk, sem tvær listakonur hafa gert...."

Akureyrarbær stendur í mikilli þakkarskuld við þær tvær konur sem hér hafa unnið mesta starfið, hina eldri frú Schiöth, móðir Axels Schiöts og hina yngri frú Schiöth, afmælisbarn þessa dags. Þessum garði hefur afmælisbarnið um fleiri áratugi fórnað feikna miklum tíma og lagt í hann mikla orku. Hann er ávöxtur af hennar lífsþrá og hennar fegurðarskyni. Hann hefur verði og er hluti af hennar draumhýra landi. Hin stóru og fögru tré garðsins eru ávextir ástar hennar og umhyggju. Þessi garður túlkar sálrænt eðli hennar, trú hennar og vonir. Þessi garður er listaverk sem tvær listakonur hafa gert með hjálp skaparans.

Venjulega er hvert listaverk fullgert, þegar listamaðurinn lætur það frá sér fara, eða þegar hann er allur. En þessi garður mun halda áfram að stækka þó frú Schiöth með höndum sínum vinni ekki lengur að honum. Andi hennar og áhrif lifa og strafa þótt hún hverfi sýnum. Listaverk þetta, Lystigarður Akureyrar, mun verða stærri og fegurri með hverjum áratug sem líður. Keypt mun verða landið hér niður af garðinum alla leið niður að hafnarstræti og lagt undir garðinn. Göng munu gerð úr efri hluta garðsins undir veginn og í neðri hluta hans og tré plöntuð alla leið niður að Hafnarstræti.

Frú Shiöth hefur haft mikil áhrif á uppeldi æskulýðs þessa bæjar með verkum sínum. Þau áhrif hafa strax verkað á ungbarnið í vagni, er móðir ekur inn í Lystigarðinn og lætur dvelja þar. Fegurð garðsins og angan trjánna berast að skynfærum og vitund barnsins og hafa áhrif á það. Og áhrifin verða meiri eftir því sem barnið kemur oftar í þennan fagra garð.

Dagur 9/8 1951. Brot úr ræðu Þorsteins M. Jónssonar forseta bæjarstjórnar við afhjúpun myndastyttu af frú Margrethe Schiöth 3 júlí það ár.

Er félagsstarfið dvínaði lagði bærinn aukinn fjárstyrk til Lystigarðsins sem ekki hefði þó hrokkið langt ef ekki hefði noti hagsýni frú Margrethe. Einnig barst garðinum vegleg gjöf frá velunnara félagsins. Var það lágmynd úr eir er sýnir konu við gróðursetningu. Myndina gerði listakonan Tove Ólafsson. Leitað var ráða hjá Sigurði skólameistara um smekklega áletrun á myndina.

Alls starfaði Margrethe Schiöth að vexti og viðgangi garðsins í samfleytt þrjátíu ár. Á þessu tímabili naut hún aðstoðar allmargra manna og kvenna um lengri eða skemmri tíma. Þuríður Árnadóttir eða Þura í Garði, ein og hún var jafnan kölluð mun hafa starfað þar lengst. Hún vann þar sitt gróðrarstarf í mörg ár af einstakri alúð og trúmennsku meðan heilsan entist. Mikið orð fór af kveðskap Þuru og hefur hún eflaust glatt margan gest með sínum smellnu gamanvísum. Einn morgun er hún var að störfum í garðinum kom hún auga á tölu í einum heybindingunum í dæld sem var í laginu eins og bæli. Þatta vakti ýmsar grunsemdir hjá Þuru og kvað hún þá þessa vísu.

"Næturgolan svala svalar
syndugum hugsunum.
Sínu máli talan talar,
talan úr buxunum."

Þegar Margrethe sagði starfinu við garðinn lausu var hún orðin háöldruð kona eða áttatíu og þriggja ára. Á sjötugsafmæli frú Schiöth gerði Akureyrarbær hana að heiðursborgara kaupstaðarins í viðurkenningarskyni fyrir sjálfboðaliðsstörf hennar í þágu Lystigarðsins. Þá var henni einnig reistur minnisvarði á áttræðisafmælinu að tilstuðlan fegrunarfélagsins í garðinum. Á skildinum stendur "Margrethe Schiöth. Hún gerði garðinn frægan." Hún var minnistæð persóna að sögn þeirra sem til þekktu. Hún kvaddi þennan heim sumarið 1963 rúmlega níræð að aldri. Eitt er þó víst að minning hennar verður ávallt tengd Lystigarði Akureyar.

Tímabil Jóns Rögnvaldssonar.

Eftir að frú Schiöth lét af stjórn garðsins haustið 1953 var leitað til Jóns Rögnvaldssonar garðyrkjumanns um að veita honum forsjá. Ástæður voru aðallega tvær. Jón var fremstur kunnáttumanna á þessu sviði og einnig hafði hann oft aðstoðað frú Margrethe í garðinum og var því manna líklegastur til að halda starfinu áfram í sama anda og hún.

Undir handarjaðri Jóns tók Lystigarðurinn fljótt nokkrum breytingum. Var hann á næstu árum stækkaður tvívegis, til suðurs og vesturs. Þá lagði hann áherslu á að hæfilegt hlutfall yrði milli grasflata, blómabeða og runna annars vegar og trjágróðurs hins vegar. Kom þetta í veg fyrir að of þéttur og mikill trjágróður spillti svip garðsins.

Stórfelld stækkun Lystigarðsins

- verkefni fyrir æskuna.

Lystigarðurinn er hin mesta bæjarprýði. Þarf ekki að lýsa því fyrir bæjarmönnum. Oft hefur verið talað um að stækka hann en lítið orðið úr framkvæmdum. Gert er ráð fyrir að stækka hann til vesturs og er það gott svo langt sem það nær. En meira þarf til svo að Lystigarðurinn og umhverfi hans megi verða stórum glæsilegri og stærri en nú er hann. Ef dreginn er ferhyrningur frá Þórunnarstræti suður fyrir gamla spítala, þaðan norður að Samkomuhúsi og þaðan vestur í Lystigarðshornið, má sjá, að innan þessara lína eru miklir möguleikar til þess að skapa eitt stórt Lystigarðssvæði. Þetta verk kostar fyrst og fremst starf og áhuga en ekki miklar fjárfúlgur ef áhugi borgaranna er almennur. Og það kostar ekki nema lítið í gjaldeyri, og þó þá fyrst, er að því kæmi að prýða þennan stóra garð með gosbrunnum, líkneskjum og öðru slíku.

(Dagur 21/1 1950)

Þess er vert að geta að við hlið Jóns starfaði lengst af Kristján bróðir hans og var honum jafnan sem önnur hægri hönd. Innlendu jurtirnar í safnið sóttu þeir bræður út um allt land. Takmarkið var að fá eintak af öllum íslenskum plöntum frá innlendum vaxtarstöðum og spöruðu þeir hvorki til þess tíma né erfiði. Þeir sem lagt hafa stund á jurtasöfnun hafa kynnst því hversu erfitt og mikið þolinmæðisverk það getur verið að finna sjaldgæfar plöntur enda þótt vitað sé nokkurn veginn um vaxtarstað þeirra. Oftast munu þeir bræður þó hafa snúið heim með mikinn feng og reynslunni ríkari og fáir tókum þeim fram í þeirri list að finna fátíðar tegundir.

Í ræktun íslenskra jurta var Jón brautryðjandi. Í fyrstu ræktaði hann þær í steinhæð og þykir furðu gegna hverju margar tegundir má rækta í því umhverfi. Síðar kom hann upp skilyrðum fyrir votlendis og vatnajurtir sem bætti safnið mikið. Hann fékk grasafræðinga í lið með sér til söfnunar og til að viðhalda réttri merkingu plantnanna og niðurröðun. Ekki má gleyma því að á sama tíma fjölgarði erlendum tegundum safnsins í sífellu. Gerði Jón stöðugt tilraunir með ræktun fjölmargra þeirra og valdi til framhaldsræktunar þær tegundir sem vel reyndust við íslenskar aðstæður. Árangur af margra ára dugnaði og þrautseigju og einlægum áhuga þeirra bræðra verður seint metinn að verðleikum en grasasafnið í Lystigarði Akureyrar mun standa sem ódauðlegur minnisvarði handaverka þeirra.

Jón Rögnvaldsson lét af störfum við Lystigarðinn árið 1970. Hafði þá grasagarðurinn að geyma nær allar tegundir íslensku flórunnar auk hinna fjölmörgu erlendu jurta, svo að all nam fjöldi tegunda í Lystigarðinum um tvö þúsund. Sumarið 1972 tók heilsu Jóns að hraka og 10. ágúst það sama ár lést hann 77 ára að aldri.

Auk starfa sinna við Lystigarðinn lét Jón mikið að sér kveða í garðyrkjumálum bæjarins. Hann rak garðyrkjustöðina Flóru um skeið og hafði forgöngu um stofnum Skógræktarfélags Eyfirðinga þar sem hann gegndi formennsku fyrstu árin. Hann vann einnig við leiðbeiningar í garðyrkju, skipulagningu skrúðagarða og önnur ræktunarstörf. Hann skrifaði einnig mikið og árið 1937 kom út bók hans "Skrúðgarðar" sem síðan var endurútgefin 1953. Auk þess skrifaði hann margar greinar í blöð og tímarit um garðyrkju, skógrækt, skipulag og landbúnað. Eitt af helstu baráttumálum Jóns var að komið yrði upp garðyrkjuskóla hér norðanlands og hafði honum orðið nokkuð ágengt í því efni er dauðinn knúði á dyrnar. Ekki er að efa að honum hefði tekist þetta ætlunarverk sitt eins og svo mörg önnur ef honum hefði enst aldur til.

Í virðingarskyni við söfnunarstörf Jóns veitti forseti Íslands honum fálkaorðuna 17. júní 1963.

Síðari tímar.

Þegar Jón og Kristján Rögnvaldssynir létu af störum haustið 1970 tók garðyrkjustjóri bæjarins Oddgeir Árnason við umsjón garðsins. Hann hafði reyndar verið ráðinn frá 1. maí 1970 af Jóni Rögnvaldssyni. Var það miður heppileg ráðstöfun að allra mati þar sem hann þurfti að sinna svo mörgum öðrum störfum. Var því enginn garðyrkjumaður í Lystigarðinum næstu tvö árin. 1970 var Hörður Kristinsson grasafræðingur ráðinn fastur starfsmaður hjá bænum á hálfum árslaunum. Starfaði hann hjá Lystigarðinum í 3 mánuði á ári til að byrja með, aðallega að sumrinu.

1973 var Hólmfríður Sigurðardóttir garðyrkjukandidat ráðin af Oddgeiri sem garðyrkjumaður við garðinn í 8 mánaða starf á ári. Aðalstarf hennar fyrsta sumarið var umsjón og hirðing erlenda plöntusafnsins. Hafði hún sama hátt á því og Jón Rögnvaldsson en endurskipulagði og lét flytja til nokkurn hluta fjölæra plöntusafnsins þannig að það nyti sín betur og yrði aðgengilegra fyrir gesti garðsins. Einnig sá hún um fræskipti garðsins og hafði aðstöðu á Náttúrugripasafninu að vetri. Hörður Kristinsson þá safnvörður hjálpaði henni við fræskiptin og ýmislegt annað er laut að rekstri garðsins. Hann sá einnig um íslenska plöntusafnið í garðinum þar til hann fluttist til Reykjavíkur 1977.

Síðla sumars 1975 tók Hólmfríður við yfirumsjón Lystigarðsins af garðyrkjustjóra og var ráðin í fullt starf vorið eftir. Bættust þá við alls konar stjórnunarstörf auk garðyrkjumannsstarfans næstu þrjú og hálft ár eða þar til Jóhann Pálsson grasafræðingur var ráðinn í ársbyrjun 1979 sem forstöðumaður garðsins. Unnu þá tveir fastir starfsmenn við garðinn allt árið. Hólmfríður lét af störfum haustið 1980 en við tók af henni Axel Knútsson garðyrkjumeistari.

Í tíð Jóhanns urðu þær breytingar helstar að meiri áhersla var nú lögð á innflutning trjáa- og runnategunda en áður. 1983 var tekið upp aftur (var í tíð Jóns) markvissara spjaldskrárkerfi þar sem skráð var á hvert spjald plöntuheiti (latneskt og íslenskt), ætt, hvaðan fræið var pantað, hvar fræi var safnað í náttúrunni, hvenær það barst til garðsins, sáningartími, spírun og byrjað var að skrá hvernig reynsla var af einstöku tegundum. Einnig var skráð staðsetning plöntunnar í garðinum.

Af stærstu framkvæmdum má nefna endurgerð beða íslensku flórunnar, en þeirri beðagerð lauk haustið 1985. Mikil niðursveifla varð þá í tegundafjölda, en síðan 1986 hefur verið unnið markvisst að því að endurheimta allar þær tegundir sem misfórust við þessar framkvæmdir.

Í lok ársins 1985 fékk Jóhann í ársleyfi frá störfum. Í stað hans var Axel ráðinn sem forstöðumaður garðsins í 1 ár.

1986 er Elín Gunnlaugsdóttir grasafræðingur ráðin í hálfa stöðu við náttúrugripasafnið sem síðan þróaðist út í hlutastarf við Lystigarðinn. Aðstoðaði hún Axel þá m.a. við gerð frælista o.fl. Starfshlutfall Elínar var síðar aukið, fyrst í 8 mánaða starf við garðinn, sem síðar breyttist í 9 mánaða starf.

Í júlí 1987 gerast síðan þau tíðindi að Lystigarðurinn er sameinaður Náttúrugripasafninu og stofnunin sem heild nefnd Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Hörður Kristinsson var ráðinn þá sem forstöðumaður þeirrar stofnunar. Einnig sótti Axel þá um ársleyfi frá störfum sem hann og fékk. Í stað Axels var Björgvin Steindórsson garðyrkjufræðingur ráðinn til starfa við garðinn. Axel sneri ekki til baka til starfa við Lystigarðinn. Haustið 1986 var Eyrarlandsstofa sem byggð var í kring um 1845 flutt inn í Lystigarðinn, lagfærð og tekin formlega í notkun í byrjun júlí 1987. Er hún því eitt elsta húsið í bænum og hefur haldið að mestu upprunalegu útliti sínu. Á árunum 1992-1994 var síðan Jónsstofa byggð en hún er svo nefnd í minningu Jóns Rögnvaldssonar.

Þessi skipan mála hélst síðan til 1994. Þá var náttúrufræðihluti Náttúrufræðistofnunar Norðurlands gerður að Náttúrufræðistofu á Norðurlandi eystra og reksturinn yfirtekinn af ríkinu. Hörður var ráðinn forstöðumaður setursins og Elín grasafræðingur garðsins var einnig ráðin hjá ríkinu. Lystigarðurinn var þá skilinn formlega frá Náttúrufræðistofnun Norðulands og Björgvin Steindórsson tók við starfi forstöðumanns.

Næstu ár keypti Lystigarðurinn grasafræðiþjónustuna af ríkinu á útseldri vinnu. Vinnumagnið samsvaraði hálfs árs starfi grasafræðings. Hélst sá háttur á allt til 1996 en það ár náðust ekki samningar við ríkið varðandi taxta í útseldri vinnu. Elín grasafræðingur Gunnlaugsdóttir starfaði síðast við garðinn sumarið 1996 og og síðan hefur ekki verið starfandi grasafræðingur við plöntusafnið og er það mjög svo bagalegt. 1996 var reyndar ákveðið að auglýsa eftir grasafræðing eða ígildi hans og var það gert. Skemmst er frá því að segja að ekki náðust samkomulag um kaup og kjör við þann aðila sem varð fyrir valinu og varð því ekkert af þeirri ráðningu. Á hverju ári hefur síðan verið meiningin að ráða grasafræðing í þessa lausu stöðu en einhvern veginn hefur það aldrei komist í verk hjá yfirvöldum bæjarins og viðbáran yfirleitt sú að nú þyrfti að spara og ekki mætti hækka kostnað við rekstur garðsins.

Vonandi verður þó ráðin bót á því þegar árið 2000 en síðasta loforð Umhverfisnefndar og bæjarráðs hljóðaði upp á það, en eins og áður hefur komið fram hefur ráðningu grasafræðings margoft verið frestað á síðustu árum.

1 mars 2000. Björgvin St.Til baka
Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is