═ morgunsßri­ - Ragna Sigur­ardˇttir
Í morgunsárið greiðir hún sér með trékambi. Hægt með föstum
strokum. Vöxturinn er svo mikill að hana kitlar í svörðinn. Hún
strýkur hendinni yfir gróðurinn. Finnur blóm springa út undir
fingurgómunum. Sóleyjar og baldursbrár. Hún leggur kambinn frá
sér. Fer út í garðinn og krýpur. Kippir upp kartöflugrösum. Rótar og
grefur með berum höndum. Djúpt ofan í moldinni finnur hún sætar og
safaríkar appelsínur.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1957 - Grasgar­ur (Botanisk Have) Ý Lystigar­inn

Fegrunarfélagið kaupir “Grasgarðinn” í Fífilgerði. Fyrir skömmu síðan samþykkti stjórn Fegrunarfélags Akureyrar að hafa forgöngu um kaup á jurtasafni Jóns Rögnvaldssonar garðyrkjumanns í Fífilgerði í þeim tilgangi að flytja það í Lystigarðinn á Akureyri. Hefir nú verið gengið frá kaupunum af hálfu félagsins, svo að tryggt er, að þetta merkilega og sérstæða safn flyst ekki úr héraðinu, eins og út leit fyrir um skeið.

Leitað til bæjarstjórnar.

Félagið hefir sent bæjastjórn Akureyrar erindi um mál þetta og mælst til þess, að hún legði fram fé til þessara kaupa.

Fylgdi erindinu svohljóðandi greinar­gerð (nokkuð stytt hér):

"Að frumkvæði Sigurðar Pálssonar, kom stjórn Fegrunarfélags Akureyrar á fund 30. mars e. h., til þess að ræða möguleika á því að koma upp grasgarði á Akureyri.

Þannig er mál með vexti, að Jón Rögnvaldsson, garðyrkjufræðingur í Fífilgerði, hefur nú selt jörð sína og flytur til Akureyrar.

Jón hefur komið sér upp grasgarði í Fífilgerði eins og kunn­ugt er og hefur hann unnið að því um 30 ára skeið í hjáverkum með einstökum myndarbrag og dugnaði. Í garði hans eru um 636 tegundir af fjölærum plöntum, trjám og runnum, allt af útlendum uppruna.

Það þarf ekki að taka það fram, að þessi garður Jóns er fyrir löngu orðinn kunnur innan lands og utan. Má telja, að þessi garður sé í raun og veru einasti grasgarður á Íslandi hvað skipulag og uppsetningu viðvíkur.

Nú liggur það hinsvegar fyrir, að Jón verður að leggja garð sinn niður og selja úr honum allar jurtir og runna, og mun Jón þegar hafa fengið tilboð um kaup á jurtasafni sínu. Fegrunarfélagið lítur svo á, að nauðsynlegt sé að hefjast handa í þessu efni og tryggja það að þetta merka jurta­safn verði ekki selt burtu úr héraðinu.

Þá viljum við vekja athygli á því, að þar sem Jón Rögnvaldsson er ráðinn hjá Akureyrarbæ, sem garðyrkjuráðunautur, mundi hann að sjálfsögðu vinna að því að flytja safnið og koma því fyr­ir í Lystigarðinum og á þann hátt gæti hann fylgt því eftir og nyti þá við þekkingar hans á ræktun og meðferð þessara jurta og runna, sem hann hefir verið að fást við um árabil.

Það er enginn efi á því að það yrði mikill menningarauki að því fyrir Akureyri að hefja undirbúning að því að koma upp grasgarði, og byrja með því at tryggja sér safn Jóns af útlendum jurtum og runnum, sem margar eru fágætar og mjög verðmæt­ar. Sennilega gæti komið til greina síðar meir að fjölga sumum tegundum s.s. runnum og rós­um og selja.

Einstæður skrúðgarður.

Í bókinni Garðagróður eftir Ingólf Davíðsson og Ingimar Óskarsson (Rvík. 1950), er þessa garðs Jóns Rögnvaldssonar lof­samlega minnst og þá talinn um 25 ára gamall. Segir þar m.a.: ... mun hann vera alfjöl­skrúðugasti skrúðgarðurinn á landinu. Og auk þess vaxa þar erlendar jurtir, sem hvergi eru hér annars staðar í ræktun. Frá þessum stað hafa verið fluttar margar fágætar jurtir á s. l. áratug, bæði til Akureyrar, Reykja­víkur, Hafnarfjarðar o. fl. staða. Í garðinum í Fífilgerði munu nú vaxa sem næst 250 fjölærra, erlendra plöntutegunda, þar af 40 tegundir trjáa og runna. Auk þess eru þar í ræktun innlendar jurtir í tugatali víðs vegar að af landinu."

Síðan þetta er ritað hefir tegundafjöldinn mun meira en tvöfaldast og erlend söfn fengið þaðan jurtategundir, sem ekki reyndust fáanlegar annars staðar. Verður því að játa, að hér hefir stjórn Fegrunarfélagsins sýnt af sér röggsemi og framtak, sem hún á fulla virðingu og þökk fyrir. Hitt hefði mátt harma, ef svo merkilegu jurtasafni hefði verið dreift út um hvippinn og hvappinn og að mestu leyti burt úr héraði.

1957, Íslendingur, 17 maí

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is